19.4.2015 | 18:35
Hvenær verður munaðarlausa barnið heilt?
Fyrir um það bil kannski tveimur árum skrifaði ung stúlka grein á vefinn um uppeldi sitt og æsku og flakk milli fósturheimila. Ég man að ég hugsaði um þessa stúlku, vá hvað hún er hugrökk að skammast sín ekki neitt og að þora bara að segja frá þessu svona fyrir alþjóð. Á þessum tímapunkti ákvað ég að fara í naflaskoðun og athuga af hverju mér fyndist það svona mikið feimnismál að hafa verið í sömu sporum og hún og af hverju mér fyndist það svona fjarri mér að ræða þetta í sömu mynd og hún gerði. Það hefur svo sem aldrei verið neitt erfitt að ræða þessi mál en ég hef hins vegar alltaf skammast mín mjög fyrir það að hafa verið þetta barn.
Ég er búin að bíða eftir því í um það bil 31 ár að upplifa það að vera heil. Það er búin að vera þrautarganga að stemma þetta líf af og koma því í skorður allar götur síðan að ég fattaði fyrst að hugsanlega væri ég ekki stödd á því heimili sem myndi veita mér það öryggi og þá ást sem ég þyrfti til að lifa af.
Það hafa ófáir komið til mín í gegnum tíðina og sagt við mig "mikið er merkilegt hve heil þú ert eftir allt saman". Ég hef alltaf tekið þessu sem hrósi og þakkað fyrir mig með vandræðalegu brosi eins og sönnum Íslendingi sæmir. Við erum jú stjarnfræðilega léleg í því að taka hrósum þessi ágæta þjóð. En á sama tíma hef ég lengi velt því fyrir mér hvenær ég upplifi mig sem heila. Hvenær nær maður þeim áfanga að upplifa sig sem heila manneskju en ekki brotið munaðarlaust barn lifandi foreldra. Jú ég nefnilega þorði í fyrsta skipti í ár að segja þessi orð upphátt. Ég er munaðarlaust barn lifandi foreldra og vitið hvað ég þarf bara ekkert að skammast mín fyrir það! Magnað alveg hreint! Frábær tilfinning þegar maður er svona farin að anda aftur. Það tók ekki nema um það bil viku að hætta að fríka út eftir að ég þorði að láta þessi orð falla og hætta að skammast mín fyrir það að foreldar mínir voru bara að klúðra málunum big time ekki ég.
En það var í dag þegar ég átti langt símtal við bróður minn að ég áttaði mig á því að ég er orðin heil. Það er nefnilega þannig að það kemst enginn frá því að verða fyrir áföllum í lífinu nema að hann hætti að lifa því sjálfur. Ég mun alltaf lenda í einhverju en ég mun aldrei verða undir aftur. Ég er í dag heill einstaklingur og lifði það af að vera barn foreldra minna. Það má ekki mistúlka orð mín hérna og halda að foreldar mínar séu ribbaldar. Þau voru bara ekki betur gerð en svo að þau gátu ekki skilað af sér betri þátttöku í lífi mínu. En að sama skapi að þá skal minna fólk á að í litla Hafnarfjarðar samfélaginu góða og yndislega sem ég bý í að þá skal aðgát höfð í nærveru sálar. Því elskurnar mínar að þegar þið komið þrammandi til mín og segði mér að þið hafið lesið grein eftir móður mína í fréttablaðinu eða morgunblaðinu að þá breytir það ekki þeirri staðreynd að ég hef ekki séð hana eða talað við í 18 ár og get með engu móti sagt ykkur hvað er að frétta af henni og ævintýrum hennar. Ég er að lesa jafn mikið um það í blöðunum og þið.
En hvað var það sem gerði mig heila og varð til þess að ég át ekki fíkniefnin eða misbauð ekki líkama mínum eins og mörg börn sem koma frá brotnum heimilum gera? Jú ég var svo sjúklega upptekin af því að verða aldrei hluti af tölfræðinni! Ég ætlaði aldrei að verða hluti af þeirri prósentu barna sem færi í fíkniefni eða unglingadrykkju. Ég bögglaðist á móti straumnum með allskonar misgáfulega hluti að leiðarljósi sem allir meikuðu sens fyrir mig á einn eða annan hátt. Fyrst var það að klára framhaldsskólann til að geta sagt við foreldra mína "takk fyrir ekkert og bless". Sem ég svo gerði auðvitað ekki því ég var orðin nokkuð kurteis og fáguð á þeim tíma. Svo var það að standa mig á vinnumarkaði því ég ætlaði aldrei að þurfa að biðja um neitt.. Maður tók það nett á þrjóskunni og vann sig í rugl oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Svo var það að sigra Háskólann því ég ætlaði að gera bræður mína stolta. Sem þeir eru í dag og ég með svona líka fínt plagg uppi á vegg sem segir að ég hafi verið dugleg að læra. En það sem mestu máli skipti var að geta horft í spegilinn á hverjum morgun og segja "ég er stolt af því sem ég gerði í gær" og "ég er heiðarleg og kem satt fram við sjálfa mig". Með þessar setningar að leiðarljósi vann ég mig í áttina að því að verða alltaf besta útgáfan af sjálfir mér. Meira er ekki hægt að ætlast til af manni.
En eitt og sér var þetta ekki nóg.. það hjálpaði þó alveg heil ósköp að hafa þessi að mér fannst teymandi markmið fyrir framan mig. Það var hins vegar alveg her af frábæru fólki sem kom og tróð sér inn í líf mitt á akkúrat réttum tímapunktum. Það voru snillingar á hverju strái sem voru tilbúnir að stíga inn í þegar ég var að sigla í ranga átt og rétta mig af. Kenna mér lífsreglur og góða siði. Það er nefnilega þannig að þegar maður fer inn í fósturkerfið á Íslandi og líklega annarsstaðar í heiminum að þá hættir uppeldið pínulítið og maður fer í svona "on hold" stöðu. Maður verður ekki of lengi á neinum stað og það vill enginn vera að hræra í uppeldinu of mikið. Maður verður hálf sjálf ala og getur gert pínulítið akkúrat það sem að maður vill. En heppnin lék við mig alla leiðina og gerir enn þann dag í dag. Ég sankaði að mér fólki sem var tilbúið að leggja í púkk til að gera mig að þeim einstaklingi sem ég er í dag. Kennarar, foreldar vina, fólkið í utanlandsferðinni og fleiri skipuðu sér sess í lífi mínu og fylltu upp þar sem vantaði á. Sumir svo rækilega að þeir eru í dag fjölskylda mín.
Ég er nefnilega svo heppin að ég fékk seinna tækifæri í lífinu. Ég öðlaðist þá lukku að inn í líf mitt tróð sér fjölskylda sem tilbúin var að berja niður hvern einasta varnarmúr sem ég hafði byggt mér og þröngva sér inn svo langt að í dag leyfi ég mér að fullyrða að ég væri ekki sú sem ég er nema fyrir þau. Ég eignaðist yngi systkini sem ég fékk að gefa til baka til og reyna að leggja lífsreglur. Ég fékk óskilyrðislausa ást og umhyggju og fékk að upplifa að ég væri hluti af heild.
ÞARNA, ÞARNA kom það í samtalinu við bróður minn í dag að ég fattaði að ég væri orðin heil! Ég á þessa fjölskyldu sem ég hafði alltaf þráð, hún er kannski ekki hefðbundin eins og þín eða þessi sem þú sérð í bíómyndunum, en hver á hana svo sem! Mín er fullkomin eins og hún er! Hún leyfir mér að vera hrygg þegar þannig stendur á, hún gleðst með mér þegar lífið leikur við mig, hún gefur mér ráð þegar ég þarf á þeim að halda og hún liggur með mér uppi í sófa og borðar allt of mikið nammi þegar þannig liggur við. Hún byggir mig upp og lætur mig sjá hvað ég hef að geyma! Hún er fullkomna fjölskyldan mín og það sem magnaðast og merkilegast er, hún tengist mér ekki einu einasta blóðkorni líffræðilega. Hún kom skilyrðislaust inn í líf mitt og settist þar að án þess að ætlast neins af mér til baka annars en að vera með.
Í dag er ég heil og þakka öllum sem hafa komið að því að gera mig heila fyrir af öllu hjarta! Þið eruð her af fólki sem gerðuð það sem ég hélt að myndi aldrei takast. Ég er stútfull af þakklæti og það vottar ekki fyrir skömm. Ég valdi ekki þessa lífsinnkomu mína en ég spilaði svo sannarlega vel úr henni!
Ást á ykkur
-Hulda
Um bloggið
Hulda Bjarkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.